Um mig
13.1.2010 | 19:56
Ég heiti Margrét Júlía Rafnsdóttir og er fædd í Reykjavík 17. 12. 1959, dóttir hjónanna Rafns Júlíussonar og Kristínar Guðmundsdóttur. Ég er alin upp í Reykjavík, gekk í Miðbæjarskólann, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla, þaðan sem ég tók landspróf árið 1975. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík og lauk ég stúdentsprófi af náttúrufræðibraut árið 1979. Næstu tvö árin var ég í Háskóla Íslands og lærði frönsku, heimspeki og tók próf sem leiðsögumaður. Ég lauk B.ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985, með sérstaka áherslu á líffræði. Árið 2002 lauk ég meistaraprófi í umhverfisfræði frá Háskóla Íslands.
Árið 1985 hóf ég kennslu við Snælandsskóla Kópavogi og kenndi þar um langt árabil, aðallega náttúrufræði á unglingastigi ásamt því að hafa umsjón með ýmsum verkefnum þar og var verkefnisstjóri í umhverfismálum. Um tveggja ára skeið starfaði ég sem ritstjóri í náttúrufræði hjá Námsgagnastofnun. Um nokkurra ára skeið var ég stundakennari í náttúrufræði og umhverfismennt við Kennaraháskóla Íslands. Árið 2007 hóf ég störf hjá Barnaheillum- Save the Children Iceland, sem eru alþjóðleg mannréttindasamtök sem berjast fyrir réttindum barna og bættum hag þeirra: www.barnaheill.is. Ég er verkefnastjóri innlendra- og Evrópu verkefna.
Ég hef skrifað námsefni um umhverfismennt og mannréttindi:
Ein jörð fyrir alla um ókomna tíð- handbók fyrir skóla um umhverfismál ( Námsgagnastofnun 2005)
Fræðsluvefur um umhverfismál: www.heimurinn.is
Kynfræðsluvefur: http://www1.nams.is/kyn/index.php
Námsvefur um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna: www.barnasattmali.is
Ég hef haldið ótal erindi um umhverfismál, haldið námskeið og veitt ráðgjöf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.