Hver þarf mat mat og hver þarf ekki mat?
25.3.2010 | 22:34
Ég var að athyglisverðu málþingi í dag í Iðnó. Tilefnið var Evrópuár gegn fátækt , en ári 2010 er tileinkað því. Á Íslandi er það 10 % þjóðarinnar sem telst fátækt og er það svipað og í nágannalöndum okkar. Þetta hlutfall hefur lítið breyst og var hið sama á góðæristímunum. Ýmsir mælikvarðar eru notaðir til að mæla slíkt sem ekki verður rakið hér. Það er mikið virðingaleysi af okkur sem þjóð að láta það viðgangast að hluti þjóðainnar sé fátækur. Fátækt er í raun mannréttindabrot.
Mannéttindi eru oft flokkuð í tvo flokka; annars vegar borgaraleg og stjórnmálaleg og hins vegar félagsleg og efnahagsleg. Ágætlega hefur gengið í hinum vestræna heimi að framfylgja fyrrnefnda flokknum. Það hefur verr gengið með þann síðar nefnda. Það er látið líðast og eins og það sé bara sjálfsagður hlutur að hluti þjóðar sé fátækur og aðrir mali gull. Ein grundvallarregla allra mannréttindasamninga er bann við mismunun, þ.e. jafnræðisreglan. Ég tel að hún hljóti að gilda líka hvað varðar réttinn til að lifa mannsæmandi lífi.
Þessi fátæktarumræða var hávær í dag, þegar í fréttum kom að Fjölskylduhjálp Íslands mismunaði fólki eftir uppruna og létu útlendinga fara í aðra röð en Íslendinga til að fá matargjafir. Þegar þetta var gagnrýnt var svarið að margir af þessum útlendingum teldu sig eiga rétt á þessum mat en þyrftu hann kannski ekki. Nú spyr ég; hver þarf mat og hver ekki? Hver metur það? Eru allir Íslendingarnir spurðir hvor þeir virkilega þurfi matinn? Svo segi ég; það er betra að einhver sem ekki þarf fái mat, en einhver sem þarf fái ekki. Ef fólk kemur og segist þurfa ma, þá er það væntanlega það sem gildir. það hlýtur að vera nógu erfitt að þurfa að stíga það skref að fara og biðja um slíkar matargjafir, þó að fólk sé ekki dregið í dilka og vænt um að vera að svíkja slíkt út. Komum fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur.
Athugasemdir
Það gleymist að útlendingarnir komu til landsins að því að við Íslendingar vildum það. Hér var þensla og skortur á vinnuafli. Að mínu mati er það aumingjaskapur að draga þetta fólk í dilka og setja skörinni lægra. Þetta fólk hefur borgað skatta og skilað meira til þjóðarbúsins en tekið frá því.
Sigurður Haukur Gíslason, 25.3.2010 kl. 22:52
Námvæmlega. Útlendingar hafa lagt margfalt meira af mörkum inn í íslenskt samfélag en það sem þeir hafa þegið úr því, Það má alls ekki gleymast. Við eigum þessu fólki mikið að þakka.
Margrét Júlía Rafnsdóttir, 25.3.2010 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.