Breytt landslag í Kópavogi?
21.2.2010 | 22:36
Eftir 20 ár, sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hefur Gunnar I. Birgisson beðið lægri hlut í prófkjöri. Ekki hefur náðst í manninn og liggur hann væntanlega undir feldi og hugsar næsta leik. Fólkið í bænum spáir í spilin, skrafar saman og bloggar. Sumir segja að það hafi verið Samfylkingarfólk sem kom honum frá, það hafi hópast í flokkinn og kosið Ármann. Engan þekki ég sem gerði það. Hafi Samfylkingin orðið þess valdandi að Gunnar var ekki kosinn til forystu var það vegna þess að Samfylkingin í Kópavogi er búin að opna fjóshauginn og sýna inn í hann, benda á svo ótalmargt sem ekki telst til góðrar stjórnsýslu, en hefur viðgengist í valdatíð Gunnars.
Dagana fyrir prófkjörið rigndi í húsin bæklingum frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins. Meira frá sumum en öðrum.
Ég er að hugsa um að halda þessum bæklingum til haga, því sumt er hin mesta skemmtilesning og sannarlega hægt að hlægja.
Einn frambjóðandinn ætlaði að fjölga Kópavogsbúum til að hægt væri að greiða niður hinar gífurlegu skuldir bæjarins. Sem sagt fá nýja skattgreiðendur. En þurfa þeir enga þjónustu?
Gunnar Birgisson sendi íbúum í Linda- Kóra og Vatnsendahverfum bréf nokkrum dögum fyrir prófkjörið, þar sem hann talaði um Kópavog í fortíð og framtíð. Þar segir hann: Vinstri menn höfðu verið í þrjú kjörtímabil við völd í Kópavogi þar til núverandi meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna komst til valda 1990 og hafði lítið verið um framkvæmdir í bænum. Stöðnun ríkti, uppbyggingu var ekki sinnt.....
Já það er rétt vinstri menn voru við stjórnvölinn til 1990 og áherslur þeirra voru uppbygging þjónustu við bæjarbúa og þá sérstaklega fyrir ungt fólk með börn, því í bænum var mikið að börnum. Í Kópavogi voru bestu leikskólarnir, eins og ég hef áður skrifað um, og svo mætti lengi telja. Bærinn var ungur og forgangsröðin rétt.
Það er ekki víður sjóndeildarhringur að álíta uppbyggingu einungis felast í byggingu nýrra íbúarhverfa.
Eftir langt tímabil útþennslu kemur vonandi tímabil uppbyggingar betra samfélags fyrir alla Kópavogsbúa með Samfylkinguna í fararbroddi.
Athugasemdir
Fínn pistill hjá þér Margrét Júlía.
Varðandi þetta síðasta um stöðnunina fyrir árið 1990 þá verða menn að horfa til þeirra aðstæðna sem ríktu í þjóðfélaginu á þessum tíma. Þeir sem benda á Gunnar og segja "Hann gerði þetta allt!" verða að muna að síðustu 20 ár hafa verið einn mesti uppgangstími í íslensku samfélagi, það er ekki Gunnari að þakka því þegar hann sat á þingi þá var það eina sem hafði til málanna að leggja að lögleiða hnefaleika. Framfarir í íslensku þjóðfélagi eru ekki Gunnari að þakka. Sannarlega hefur margt gott gerst í Kópavogi á síðustu 20 árum, þó það nú væri. Íbúum hefur fjölgað og það er gott, uppbygging íþróttamannvirkja hefur verið gríðarleg og það má benda á margt annað gott sem hefur gerst hér í bænum.
En því miður þá er líka margt sem hefur miður farið, uppbygging hefur oftar en ekki verið meira af kappi en forsjá, deilur við íbúa hafa verið viðvarandi (sérstaklega eftir að Gunnar varð bæjarstjóri), ýmsar byggingar hafa risið, m.a. íþróttamannvirki, sem draga má verulega í efa að þörf hafi verið fyrir og forgangsröðun hefur verið kolröng. Áherslan hefur verið á malbik og steinsteypu í stað samfélagsþjónustu og virðingar fyrir fólkinu sem byggir þennan bæ.
Jafnaðarmennskan hefur ekki verið í hávegum höfð og það er sá þáttur sem fyrst og fremst þarf að koma á í okkar góða bæ Kópavogi!
Gangi þér vel í þínum verkum Margrét - XS
Ingibjörg Hinriksdóttir, 22.2.2010 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.