Kópavogur og umhverfismálin

Ég hef verið í umhverfisráði Kópavogs frá árinu 1999, fyrst sem fulltrúi Kópavogslistans og síðar fyrir Samfylkinguna.  Í umhverfisráði hef ég kynnst því hvernig vinnubrögð eru stunduð hjá meirihlutanum í bænum. Lítið samráð er haft við íbúa og lítið hlustað á athugasemdir þeirra. Lítill vilji er til að vinna að umhverfismálum og oft hafa hagsmunir þeirra sem eiga fjármagn og atvinnutæki verið teknir fram yfir þá skyldu okkar að bera virðingu fyrir umhverfi okkar og náttúru. Því vil ég breyta.
Ýmis mál hafa þó komist í höfn á undanförnum árum og þá ekki síst vegna frumkvæðis Samfylkingarinnar. Þar má nefna Staðardagskrá 21, sem er áætlun sem sveitarfélögum er gert að setja sér í umhverfismálum. Ég tók virkan þátt í vinnunni við gerð Staðardagskránnar. Fyrsta Staðardagskráin var samþykkt árið 2000. Eftirfylgni af hálfu yfirvalda hefur hins vegar ekki sem skyldi og mjög erfitt var að fá vilyrði fyrir enduskoðun og uppfærlsu af hálfu  meirihlutans.
Mér finnst mjög mikilvægt að nú eftir hina miklu útþennslu bæjarins verði staldrað við. Nú þegar er búið að skipuleggja og leggja drög að enn meiri útþennslu og byggingum inn í óbyggt land. Nokkuð er ljóst að lítið verður byggt á næstu árum. Því vil ég að núverandi plön verði endurskoðuð og horft fremur inn á við, á svæði í bænum sem hægt væri að endurskipuleggja. Víða eru reitir sem byggðust upp í árdaga Kópavogs, oft af vanefnum. Ég tel að það eigi að skoða það alvarlega hvort ekki sé hagkvæmara að endurbyggja á slíkum reitum en að nema ný lönd. Slíkt er líka umhverfisvænna, þar sem þessir reitir eru meira miðsvæðis. Hér nefni ég Auðbrekkusvæðið, svæðið fyrir austan Hamraborg, ýmsa reiti í Vesturbæ Kópavogs og jafnvel svæðið við Smiðjuveg og Skemmuveg. Þó þarf að gæta að grænum svæðum í þessum hverfum. Þau má ekki skerða. Gamli Austurbærinn í Kópavogi er sá hluti bæjarins sem er með minnst af grænu svæði á hvern íbúa. Það þarf því að standa vörð um það og verja fyrir þeim sem vilja alla reiti byggja. Hér má nefna svæði við Bjarnhólastíg þar sem áður var gæsluvöllur. Þarna hafa verið áform um byggingar, en ég sem fulltrúi í umhverfisráði lagðist gegn því með þeim rökum að lítið væri um græn svæði í þessu hverfi. Allir fulltrúar í ráðinu tóku undir það sjónarmið. Þetting byggðar er nauðsynleg, en þétting er ekki sama og að byggja hátt. Þéttasta byggð Reykjarvíkur eru Þingholtin. Þar eru ekki háreist byggð.
 
Mér er mjög umhugað um náttúru Kópavogs. Innan bæjarlandsins eru margar náttúruperlur sem þarf að standa vörð um, bæði vegna sérstöðu þeirra og gildi til útivistar fyrir okkur og komandi kynslóðir. Ég hef lengi barist fyrir því að Kópavogsleiran verði friðlýst. Leiran hefur gildi á heimsvísu sem viðkomustaður fugla á leið sinni yfir hafið. Þarna byggja þeir sig upp af orku áður en lengra er haldið. Við höfum alþjóðlegar skyldur til að standa vörð um slíka staði og friða þá. Ekki hefur verið vilji hjá meirhluta bæjarins til að gera það.

Ég býð fram þjónustu mína við bæjarbúa til að standa vörð um náttúru Kópavogs og menningaminjar. Ég býð mig fram í 3. sæti í forvali Samfylkingarinnar í Kópavogi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband