Rangfærslur bæjarstjóra

Þann 10. janúar 2009 bloggaði ég um Kópavog og hvalveiðar. Það varð efni í grein í Morgunblaðið nokkrum dögum síðar. Bæjarstjóri Kópavogs skrifaði svargrein, sem í raun var ekki svargrein, heldur grein full af rangfærslum og hroka.  Hér að neðan er svargrein bæjarstjóra og svo grein sem birtist efir mig þann 16. febrúar, þar sem ég leiðrétti rangfærslur bæjarstjórans.

 Veiðirráðgjöf Samfylkingarinnar

MARGRÉT Júlía Rafnsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi í umhverfisráði bæjarins, gerir mikið úr ráðgjafahlutverki sínu fyrir bæjarstjórn og bæjarráð í Morgunblaðsgrein sinni gegn hvalveiðum. Bæjarstjóri hafi átt að spyrja hana álits áður en lýst var stuðningi við skynsamlega nýtingu sjávarafurða.

Ráðgjafinn snjalli úr Samfylkingunni lætur sig ekkert varða um það þótt bæjarstjóri hafi borið málið undir það ráð sem er jafnvel æðra umhverfisráði, sjálft bæjarráð Kópavogs.

Ráðgjafinn góði segist jafnframt ekki vita til þess að hvalveiðar séu né hafi verið stundaðar frá Kópavogi, „þá væri nú líf og fjör á Kársnesi“.

Hrefnuveiðibáturinn Njörður KÓ hefur verið gerður út frá Kópavogshöfn í áraraðir og í kringum þá útgerð hafa skapast lífleg og fjörleg umsvif á Kársnesi. Það er rétt að halda þessu til haga þar sem náttúruverndarráðgjafi Samfylkingarinnar velkist í vafa um hverjir hafi hagsmuna að gæta.

En málið snýst um meira en þennan eina bát. Öll þjóðin á hagsmuna að gæta. Hvalveiðar snúast um atvinnusköpun, aukin útflutningsverðmæti og forræði yfir fiskimiðunum. Sjálfbær nýting hvala ógnar ekki lífríkinu og ég fagna því að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, skyldi taka áskorun minni og gefa út veiðikvóta. Ég fagna einnig meirihlutastuðningi við veiðarnar á Alþingi.

Skyldu þingmennirnir hafa munað eftir að spyrja fulltrúa Samfylkingarinnar ráða?

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi.

Rangfærslur bæjarstjórans

FYRIR nokkrum dögum birtist hér í blaði grein mín undir yfirskriftinni Kópavogur og hvalveiðar. Í þeirri grein var reifað eitt dæmi af ótalmörgum um ólýðræðislegar ákvarðanatökur og yfirgangssemi bæjarstjóra Kópavogs.

Bæjarstjórinn svaraði þeirri grein og sé ég mig nú knúna til að leiðrétta nokkrar rangfærslur sem þar eru: Ég bað aldrei um að ég yrði persónulega spurð álits áður en stuðningi var lýst yfir við hvalveiðar af hálfu bæjarins, eins og bæjarstjóri segir í grein sinni. Ég sagði að þetta hefði átt að bera undir umhverfisráð bæjarins, enda segir í Náttúruverndarlögum að umhverfisnefndir skuli vera sveitarstjórnum ráðgefandi í náttúruverndarmálum. Það hefur hins vegar ekki alltaf verið gert í Kópavogi, enda hafa umhverfismál ekki átt upp á pallborðið hjá meirihlutanum þar á bæ. Bæjarstjóra virðist þykja óþarfi að bera mál undir ráð og nefndir bæjarins, nóg sé að samþykkja þau í bæjarráði. Til hvers eru nefndir bæjarins ef það er nóg að ræða málin í bæjarráði? Stuðningur Kópavogsbæjar við hvalveiðar var þó aldrei samþykktur af bæjarráði Kópavogs, þó að hvalveiðimál hafi borið á góma í þar.

Bæjarstjórinn játar í grein sinni að eitt fyrirtæki í bænum eigi hagsmuna að gæta í hvalveiðum. Eiga önnur fyrirtæki í bænum von á sams konar stuðningsyfirlýsingu frá Kópavogsbæ? Eða er hentistefna hér ríkjandi?

Bæjarstjóri titlar mig sem ráðgjafann snjalla. Ég vil þakka hrósið, því ég er snjall ráðgjafi í umhverfismálum, enda með meistarapróf í greininni, hef setið í umhverfisráði Kópavogs frá 1999, haldið ótal fyrirlestra og skrifað efni sem nýst hefur fjölmörgum sem vilja vinna að umhverfismálum af heilindum. Því mun ég halda áfram, þó það sé við ramman reip að draga í Kópavogi.

MARGRÉT JÚLÍA RAFNSDÓTTIR, fulltrúi Samfylkingar í umhverfisráði Kópavogs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfur hef ég íhugað mjög alvarlega hvort ekki megi leyfa takmarkaðar veiðar sbr. landbúnaðarráðherra og fl. EF markaður er fyrir hvalkjörið. Mér sýnist að enn sé verið a selja 2ja ára gamalt kjöt.

Annað..og nú verkefi: Þegar hvalveiðar voru bannaðar féll Hvalur h/f úthlutaðan kvóta í skaðabætur. Á hann ekki (Kr. Lofts) að skila þessum tonnum? Kíktu á þetta.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 13:20

2 Smámynd: Margrét Júlía Rafnsdóttir

Það má örugglega skoða það vandlega hvort ekki megi leyfa einhverjar veiðar og þá úr stofnum sem ekki eru á válista eins og langreiður er. Þetta þarf allt að vinna faglega og skoða út frá öllum sjónarhornum. Greinakrif mín snérust í raun ekki um hvalveiðar eða ekki hvalveiðar, heldur um stjórnsýslu og hvernig ákarðanir eru teknar hjá Kópavogsbæ. Þar hafa stjórnsýslulög marg oft verið brotin og kærur komið vegna þess. Það er ekki hægt að ljósa yfir sig fólk sem ekki virðir lög og leikreglur samfélagsins.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, 21.2.2009 kl. 14:10

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það eru geysilega margar ákvarðanir sem taka þarf í hverju sveitarfélagi. Aðeins hluti þeirra er formlega teknar fyrir og vísað í nefndir, önnur taka nefndir upp afgreiða eða vísa til bæjarstjórna og önnur eru aðeins samþykkt þar. Ráðgjafahlutverk nefndar þýðir ekki að öll mál sem gætu tengst nefndum í sveitarfélagi séu borin undir nefndir. Það er auðvitað æskilegt að öll stærri mál séu tekin fyrir í viðkomandi nefndum. Hvort þetta mál telst vera eitt af slíkum er álitamál.

Mér finnst óþarfi af bæjarstjóra að hnýta í þig eins og hann gerir í þessu máli. Hins vegar að þetta sé eitthvað sérstakt dæmi um ólýðræðislegar ákvarðanatökur og yfirgangssemi bæjarstjóra Kópavogs finnst mér að hægt sé að deila um. Mér finnst þú yfirgera í þessu máli eins og oft er víst siður að gera í pólitísku karpi.

Sigurður Þorsteinsson, 21.2.2009 kl. 14:59

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Áfram Margrét Júlía, þú stendur þig frábærlega og ekki láta kveða þig í kútinn, hvort sem það er bæjarstjórinn sjálfur eða sjálfskipaðir verjendur hans.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 21.2.2009 kl. 17:01

5 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Hvalveiðar eru mikið hitamál í samfélaginu og alltof stórt til að bæjarstjóri geti ákveðið uppá sitt einsdæmi að Kópavogur sé fylgjandi hvalveiðum. Að einn hrefnuveiðibátur geri út frá Kópavogshöfn réttlætir ekki fjárútlát úr bæjarsjóði í þessa auglýsingaherferð.

Hvað með Ora? Á bærinn ekki að hvetja landsmenn til að borða Ora fiskibollur?

Sigurður Haukur Gíslason, 21.2.2009 kl. 18:09

6 identicon

Stendur þig vel að standa vaktina í málaflokknum. Ekki hver sem er sem myndi hafa orku í það að standa í þrasi við bæjarstjóra Kópavogs, en þér felst það vel úr hendi að eiga í þessum samræðum án þess að fara niður á sandkassaplanið sem Gunnar Birgisson virðist pikkfastur í, sama hvaða mál er til umræðu.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband