Ræða á framboðsfundi þann 18. janúar.

Eftirfarandi ræðu flutti ég á kynningarfundi frambjóðenda í forvali Samfylkingarinnar í Kópavogi.

 

• Ég er fædd í Reykjavík, tók stúdentspróf af náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík. Fór í Háskóla Íslands, nam frönsku, bókmenntir og heimspeki í 2 ár og tók próf sem leiðsögumaður. Fór svo í Kennaraháskóla Íslands og tók B.ed próf með áherslu á líffræði. Tók meistarapróf í umhverfisfræði frá Háskóla Íslands árið 2002.


• Ég starfaði lengi sem kennari við Snælandsskóla í Kópavogi og kenndi þar lengst af náttúrufræði, ásamt því að hafa umsjón með ýmsum verkefnum innan skólans, s.s. fagstjórn í náttúrufræði og verkefnastjórn í umhverfismálum. Ég var stundakennari við Kennaraháskólann í nokkur ár, í náttúrufræði og umhverfismennt. 2004 - 2006 starfaði ég sem sem ritstjóri í náttúrufræði hjá Námsgagnastofnun. Ég hef skrifað námsefni um náttúrufræði, umhverfismál og mannréttindi og sinni ráðgjöf um umhverfismál.
Frá árinu 2007 hef ég verið verkefnastjóri innlendra-  og Evrópuverkefna hjá Barnaheillum- Save the Children Iceland. Þar sé um verkefni sem tengjast mannréttindum barna s.s vernd þeirra gegn ofbeldi, barnavernd,  fræðslu og forvörnum.  Ég er í ýmsum alþjóðlegum samráðshópum sem varða baráttu fyrir réttindum barna s.s. í nokkrum Evrópuhópum sem vinna með Evrópusambandinu hvað varðar lagasetningar um réttindi barna og vernd í Evrópu.


• Starf fyrir Samfylkinguna: Ég hef tekið tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar frá upphafi og hef verið í stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi frá árinu 2005. Ég hef  verið fulltrúi í umhverfisráði Kópavogs frá árinu 1999, fyrst fyrir Kópavogslistann og svo fyrir Samfylkinguna.


• Þegar ég flutti í bæinn árið 1980 hafði Kópavogur markað sér sérstöðu sem um var talað; Kópavogur var fjölskyldu- og félagshyggjubær. Í Kópavogi voru félagshyggjuflokkar við völd og áherslur voru skýrar; Þar var fólkið í fyrirrúmi. Það voru í raun forréttindi að vera með barn á leikskóla í Kópavogi á 9. áratugnum, því hér var betur búið að leikskólum en í nágrannasveitarfélögunum. Ég var öfunduð af vinkonum mínum sem bjuggu í Reykjavík og Hafnarfirði. Í Kópavogi fengu börn fyrr leikskólapláss, þar var lögð áhersla á að á hverri leikskóladeild væru tveir menntaðir leikskólakennarar, í Reyjavík var það bara einn og svo mætti lengi telja. Bærinn var ekki stór, en okkur Kópavogsbúum leið vel, að okkur var vel búið og þjónustan var góð.

• Árið 1990 tóku svo aðrir við stjórn hér í bæ og áherslur og vinnubrögð breyttust. Lögð var áhersla á útþennslu bæjarins, byggja mikið, stórt og hátt upp. Þjónusta við bæjarbúa fylgdi ekki eftir. Hagsmunir einhverra annarra en íbúa í bænum hafa verið í fyrirtrúmi. Kópavogur hætti að vera í fararbroddi í málefnum fjölskyldna og félagshyggju. Hugmyndafræði jafnaðarmanna var ekki lengur leiðarljósið. Ólýðræðisleg vinnubrög hafa verið stunduð hér í bæ röng forgangsröðun og margar rangar ákvarðanir teknar í ósátt við íbúa. Þar má nefna Glaðheimalandið, Kársnesið og fleiri mál sem öllum eru kunnug.

• Við Kópavogsbúar þurfum ekki að vera næst stærsta bæjarfélag landsins, eiga hæsta húsið, flestu turnana, stærstu verslunarmiðstöðina, eða stærstu höfnina, til að okkur líði vel. Við viljum bæjarfélag með góða þjónustu, bæjarfélag þar sem hlúð er að íbúunum, þar sem hlustað er á okkur og við höfð með í ráðum. Bæjarfélag með manneskjulegu umhverfi og grænum svæðum, bæjarfélag þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni og arfleifðinni.

• Ég vil sjá breyttar áherslur og breytt vinnubrögð í Kópavogi.  Ég vil að virðing, jafnrétti, heiðarleiki og réttlæti verði einkunnarorð í stjórnmálum í Kópavogi á næstu árum og að hugmyndafræði jöfnuðar og félagshyggju verði leiðarljósið. Ég vil leggja mitt að mörkum til að svo megi verða. Ég vil að hagsmunir bæjarbúa og velferð verði í fyrirrúmi við allar ákvarðanatökur hvort sem um er að ræða skipulagsmál, velferðarmál eða annað. Ég legg áherslu á að staðið verði vörð um græn svæði og þær náttúruperlur sem í bænum eru. Skipulag verði endurskoðað og skipurlagsslys lagfærð samkvæmt vilja bæjarbúa.

• Samráð  við íbúa verði fastur þáttur í allri stjórnsýslu og eftirfylgni tryggð, hvort sem um að að ræða skipulagsmál, þjónustu fyrir aldraða, eða annað. Sá sem á að nýta þjónustuna á að hafa eitthvað um það að segja hvernig hún á að vera. Hvernig vilja aldraðir haga lífi sínu og hvaða þjónustu vilja þeir og hvernig?

• Mikilvægasta verkefnið sem fram undan er í Kópavogi er að standa vörð um menntun barnanna og félagslega þjónustu við bæjarbúa unga sem aldna. Þegar hagræða þarf í fjármálum þarf þetta að vera leiðarljósið. Annað kemur okkur öllum í koll síðar. Við erum flokkur jöfnuðar og félagshyggju og verðum að standa við það.

• Ég tel að menntun mín og reynsla af kennslu, störfum með ungu fólki, af umhverfis- og skipulagsmálum, af mannrétindamálum, af forvarnarmálum og af félagsmálum muni nýtast vel í störfum fyrir Kópavogsbúa á næstu árum fái ég stuðning til þess.

• Ég vil benda á bloggsíðu mína http://margretjulia.blog.is  svo og stuðningshóp á facebook.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband