Í þá gömlu góðu daga í Kópavogi

Kópavogur er ungt bæjarfélag. Þéttbýli fór að myndast í bænum um 1950. Fyrir þann tíma var Kópavogur nokkrar jarðir og sumarbústaðarlönd. Örnefni í bænum segja þessa sögu; Digranes, Fífuhvammur, Snæland og Smárahvammur svo eitthvað nefnt. Það var duglegt fólk sem byggði upp þennan bæ, reisti hús, lagði vegi og byggði upp samfélagið. Þegar ég flutti í bæinn árið 1980 hafði Kópavogur markað sér sérstöðu sem um var talað; Kópavogur var fjölskyldu- og félagshyggjubær. Í kópavogi voru félagshyggjuflokkar við völd og áherslur voru skýrar; Þar var fólkið í fyrirrúmi. Það voru í raun forréttindi að vera með barn á leikskóla í Kópavogi á 9. áratugnum, því hér var betur búið að leikskólum en í nágrannasveitarfélögunum. Ég var öfunduð af vinkonum mínum sem bjuggu í Reykjavík. Í Kópavogi var lögð áhersla á að á hverri leikskóladeild væru tveir menntaðir leikskólakennarar, í Reyjavík var það bara einn og svo mætti lengi telja. Bærinn var ekki stór, hann var minni en Akureyri, en okkur Kópavogsbúum leið vel, að okkur var vel búið og þjónustan var góð.

Svo kom árið 1990 og nýir valdhafar tóku við bænum mínum, valdhafar sem fóru í pissukeppni við önnur bæjarfélög og héldu að aðalmarkmið bæjarfélaga væru að þenjast út, stækka og fitna. Keppni var um hver gæti byggt flestu húsin á sem skemmstum tíma. Auðvitað vann Kópavogur þessa keppni, enda á bærinn mikið af góðu landi. Þetta land var hins vegar ekkert að hlaupa frá bæjarbúum, svo ekkert lá á. Í öllu óðagotinu gleymdust oft gömlu gildin sem einkenndu Kópavog og þjónusta við íbúa varð lakari. Kópavogur hætti að vera í fararbroddi hvað varðar  félagsleg gildi og þjónustu við íbúa. Margar rangar ákvarðanir hafa verið teknar á undanförnum árum, sem hafa gert það að verkum að skuldir bæjarins hafa margfaldast. Þar má nefna kaup á hesthúsum í Glaðheimum.

Nú er kominn tími til breytinga. Samfylkingin í Kópavogi er með metnaðarfulla stefnu og setur velferð  fólksins í bænum í forgang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband